Snyrtistofan Dimmalimm 15 ára

 In Fréttir

Í dag 01.09.21 fögnum við 15 ára starfsafmæli Dimmalimm?

Ég er mjög mikið afmælisbarn, og elska að eiga afmæli, ég var búin að sjá fyrir mér stóra hluti í dag og allskonar undirbúning og vesen og húllumhæ fyrir afmæli Dimmalimm. Ég er búin að vera í fæðingarorlofi síðasta árið og var að fara koma til baka. Vegna veikinda í kjölfar aðgerðar sem ég fór í fyrir stuttu, er ég fjarri góðu gamni og sit upp í spítalarúmi að skrifa þessa færslu. Það er svo skrítið þegar maður lendir í svona lífsreynslu hvað þakklæti og fólkið manns er það sem stendur upp úr öllu.

Og á þessum dýrðar afmælisdegi Dimmalimm þá er ég svo þakklát fyrir yndislega starfsfólkið mitt sem hefur staðið vaktina og gert allt sitt besta í minni fjarveru og látið fyrirtækið ganga sinn vanagang. Þegar ég byrjaði í Grafarholtinu þá vissi ég kannski ekki alveg að þetta yrði líf mitt og sál öll þessi ár. Það sem kemur sterkast upp í huga minn eftir þessi 15 ár er þrautseygja, þakklæti, samvinna, stolt og vinátta.

Það hafa verið hæðir og lægðir, gaman, erfitt og allt þar á milli en ég er þakklát fyrir þrautseygjuna. Þakklát fyrir viðskiptin og samvinnuna við ykkur kæru viðskiptavinir í gegnum árin, í gegnum  súrt og sætt.  Án ykkar væri engin Dimmalimm. Ég er þakklát fyrir frábært samstarf við birgjana okkar og langar mig að þakka þeim sérstaklega fyrir allan stuðninginn í kringum afmælið 🙂

Það er ekki sjálfgefið að hafa gott fólk í kringum sig en ég hef verið einstaklega heppin í lífinu hvað það varðar. Þegar kemur að starfsfólki þá hef ég verið mjög lánsöm í gegnum tíðina og hefur hún Rebekka Einarsdóttir starfað hvað lengst hjá mér á Dimmalimm og verið mér innan handar i tæp 7 ár. Samvinna okkar er einstök og dýrmæt og ég hreinlega veit ekki hvar ég væri án hennar.  Takk elsku Rebekka min! Hún hefur séð um rekstur fyrirtækisin undanfarið ár með glæsibrag, meðan ég hef sinnt dásamlegu móðurhlutverkinu í fæðingarorlofinu. Algjörlega áhyggjulaus.

Dimmalimm hópurinn er einstakur að mínu mati,við erum ein heild og vinnum hlutina saman, það ríkir mikil vinátta og væntumþykja, fagmennska og brennandi ástríða fyrir faginu. Gæti ekki verið heppnari. Elsku Rebekka, Telma, Súsanna og Eydís. Takk fyrir að leggja ykkur alltaf 100% fram, vera fagmenn fram í fingurgóma og vera svona æðislegar. Mig langar einnig að þakka fjölskyldu og vinum sem hafa stutt mig i gegnum árin og veitt hjálparhönd þegar ég hef þurft á henni að halda.

Ég er stolt yfir þvi að litla fyrirtækið mitt, Snyrtistofan Dimmalimm hafi dafnað og fagni 15 árum, ég stolt af starfsfólkinu mínu, ég stolt af sjálfri mér, ég er stoltur fagmaður.

Takk fyrir allt!

Ykkar Svana?

Nýlegar færslur
Hafðu sambandi

Sendu okkur skilaboð hérna, við höfum samband við fyrsta tækifæri.

0

Start typing and press Enter to search