Afburðaárangur á sveinsprófi

 In Fréttir

Á laugardaginn 4.2.2023 var gleðidagur hjá okkur á Snyrtistofunni Dimmalimm og hjörtu okkar að springa úr stolti 🙂

Elsku Eydís okkar á Dimmalimm var sæmd silfurverðlaunum fyrir afburðarárangur á sveinsprófi í gær á Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur sem haldin var við hátíðlega athöfn á Hótel Natura. Það var enginn annar er Forseti íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson veitti verðlaunin en hann er verndari hátíðarinnar.

Mig langar að óska Eydísi innilega til hamingju með einstakan árangur. Eydís er mikill fagmaður og hefur góðar hendur og góða nærveru.Fyrir utan að vera góð í sínu starfi þá er hún bara yndisleg manneskja, full af gleði, gamni og lífsorku sem ég er svo þakklát fyrir að hafa í Dimmalimm teyminu okkar. Hún lífgar vinnustaðinn með gríni, glensi og söng. Takk elsku Eydís okkar og aftur innilega til hamingju, þú ert vel að þessu komin. Haltu áfram að vera svona frábær, framtíð þin er björt og geislandi eins og þú.

Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur er árleg hátíð sem haldin er til heiðurs iðnsveinum sem lokið hafa sveinsprófi í sinni iðngrein með afburða árangri. Meistarar sveinananna eru einnig heiðraðir með viðurkenningu fyrir leiðsögn sína og þjálfun. Auk viðurkenninga til nýsveina og meistara þeirra er iðnaðarmaður ársins heiðraður, iðnaðarmaður sem þykir hafa skarað fram úr að mati stjórnar félagsins.  Til þessa hafa 302 sveinar úr 22 iðngreinum og 13 verkmenntaskólum verið heiðraðir. 

Við Rebekka vorum viðstaddar þessa glæsilegu hátíð og fylgdumst með okkar konu og öllum hinum flottu nýsveinunum taka við verðlanunum. Til gaman má geta að fyrir nákvæmlega 6 árum á þessum degi vorum við Rebekka einnig staddar á þessari hátíð þar sem Rebekka tók við sínum verðlaunum. En er þetta í þriðja sinn sem ég er svona lukkulega að að taka við viðurkenningu fyrir leiðsögn og þjálfun nýsveins sem hefur skarað fram úr á sveinsprófi. Ég vil þó taka fram að Rebekka hefur komið að stórum hluta að þjálfun og leiðsögn Eydísar svo þessi viðurkenning er ekki síður hennar, hún er okkar og okkar allra á stofunni þar sem allir leggja alltaf sitt af mörkum að leiðbeina og aðstoða nemana okkar. Við á Snyrtistofunni Dimmalimm erum liðsheild sem vinnum saman í blíðu og stríðu og er ég óendanlega stolt og þakklát fyrir teymið mitt sem eru fagmenn fram í fingurgóma. 

Kær kveðja, Svana Björk

Nýlegar færslur
Hafðu sambandi

Sendu okkur skilaboð hérna, við höfum samband við fyrsta tækifæri.

0

Start typing and press Enter to search